Fasteignakaup eru stór ákvörðun

Ástandsskoðun fasteigna miðar að því að draga fram galla sem auðveldlega gætu yfirsést. Markmiðið með skoðuninni er að finna og skrá skemmdir og galla sem geta haft veruleg áhrif á verðmat, sölu og bótarétt. Ástandsskoðun dregur verulega úr hættu á málaferlum á milli kaupenda og seljenda og gerir þannig öll fasteignaviðskipti öruggari.

Íbúðarkaup eru oftast stærstu fjárfestingar sem fólk ræðst í og því ekki að undra að fasteignaskoðanir njóti mikilla vinsælda. Gallar og skemmdir geta haft í för með sér mikinn og ófyrirséðan kostnað og nýta kaupendur jafnt sem seljendur fasteigna sér þessa þjónustu. Ástandsskoðun er hagkvæm leið til að fá gott yfirlit yfir eignina og auðveldar ákvörðun um fasteignakaup auk þess sem kaupsamningar verða faglegri og minni hætta skapast á ágreiningi. Algengt er að í kauptilboðum sé gerður fyrirvari um að fasteignaskoðun fari fram áður en endanleg ákvörðun um kaup er tekin.

Hægt er að fá nánari upplýsingar með því að senda tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Vinsamlegast látið nafn, símanúmer og heimilisfang á skoðunarstað fylgja fyrirspurn í tölvupósti. Ef um fyrirvara um ástandsskoðun er að ræða í kauptilboði er mikilvægt að tímalengd hans komi fram í beiðni um skoðun.

Hvernig fer skoðun fram?

Ástandsskoðun er framkvæmd eftir ákveðnu skoðunarferli svo minni hætta sé á að eitthvað gleymist. Byggt er á sjónskoðun og er ástand eignarinnar metið að innan- og utanverðu. Rakamæling er gerð ef rakaummerki eru sjáanleg við skoðunina. Leitað er að hverju því sem gæti talist til skemmda/galla eða valdið gæti verulegri kostnaðaraukningu fyrir kaupanda.  Skoðun íbúðarhúsnæðis tekur um það bil tvær klukkustundir á skoðunarstað. Skoðunarmaður skilar í framhaldi skoðunarskýrslu sem inniheldur almennar upplýsingar um eignina auk athugasemda og ljósmynda. Hægt er að nota dróna við skoðun á háum byggingum eða háreistum þökum.  

Í hefðbundinni ástandsskoðun eru eftirtaldir þættir ekki kannaðir: Raflagnir, neysluvatnslagnir, fráveitulagnir og dren. Ekki er skoðað undir gólfefni, bak við þiljur, inn í veggi eða á bak við innréttingar og hreinlætistæki s.s. baðkör og sturtubotna.

Hægt er að biðja sérstaklega um skoðun á þaki, rakamælingar, hitamyndatöku, sýnatökur eða skoðun á raflögnum og mikilvægt að slíkt komi fram í beiðni um skoðun. 

Fyrirvarar

Skoðunarskýrsla er byggð á þeim gögnum og upplýsingum sem vísað er til. Þær niðurstöður og ályktanir sem fram eru settar í skoðunarskýrslunni byggjast á því að þau gögn og þær upplýsingar sem skýrslan grundvallast á séu fullnægjandi og réttar. Skoðunarskýrsla á einvörðungu við um það andlag sem skýrslan fjallar um. Ekki er rétt að byggja á efni skýrslunnar einnar og sér við ákvarðanatöku um kaup á fasteign. Skoðunarskýrslu má ekki nota í öðrum tilgangi en í tengslum við framangreint og takmarkast öll hugsanleg skaðabótaábyrgð félagsins og starfsmanna þess við fjárhæð sem nemur að hámarki heildarþóknun Frumherja vegna skýrslunnar.

 

2023-04-01 00:37:37