Frumherji sér um allar almennar skoðanir ökutækja, s.s. aðalskoðanir, endurskoðanir, breytingaskoðanir, bilanaskoðanir og tjónaskoðanir. Einnig sinnum við skráningarstarfsemi vegna ökutækja, t.d. móttöku eigendaskiptatilkynninga.
Fellabær – Lokað fyrir skoðun föstudaginn 13. september. Afgreiðslan opin
Húsavík – Opið 16.-20., 23.-25. og 30. september.
Bifreiðaskoðun/ aðalskoðun
Skoðunarmánuður ökutækis miðast við endastaf skráningarmerkis ökutækisins. Frestur til aðalskoðunar ökutækis áður en til álagningar vanrækslugjalds kemur er tveir mánuðir frá skoðanamánuði.
Dæmi:
Ökutæki sem enda á 1 skal skoða í janúar
frestur vegna aðalskoðunar er til loka mars
vanrækslugjald er lagt á í apríl hafi eigandi ekki mætt með ökutækið í skoðun
Ökutæki sem enda á 2 skal skoða í febrúar
frestur vegna aðalskoðunar er til loka apríl
vanrækslugjald er lagt á í maí hafi eigandi ekki mætt með ökutækið í skoðun
Ökutæki sem enda á 0 skal skoða í október
frestur vegna aðalskoðunar er til loka desember
vanrækslugjald er lagt á í janúar hafi eigandi ekki mætt með ökutækið í skoðun
Vanrækslugjald er lagt á eigendur eða umráðamenn ökutækja sem mæta ekki með ökutækin í lögboðna ökutækjaskoðun innan gefins tímafrests.
Vanrækslugjald er 20.000 kr. vegna allra ökutækja nema tiltekinna flokka hópbifreiða, vörubifreiða og eftirvagna en gjald vegna þeirra er 40.000 kr.
Tilkynning um álagningu vanrækslugjalds er send eiganda eða umráðamanni ökutækis.
Sé mætt til skoðunar eða ökutækið skráð úr umferð innan mánaðar frá álagningu er veittur 50% afsláttur.
Ef ökutækið er afskráð til úrvinnslu/förgunar innan tveggja mánaða frá álagningu fellur gjaldið sjálfkrafa niður. Hægt er að skrá ökutæki úr umferð án þess að skila inn númeraplötunni.
Ekki er veittur helmings afsláttur vegna greiðslu eingöngu, færa verður ökutæki til skoðunar eða skrá úr umferð innan mánaðar frá álagningu til að fá afsláttinn.
Hafi gjaldið ekki verið greitt hjá skoðunarstöð að mánuði liðnum kemur krafa í netbanka.
Fornbifreiðir, húsbifreiðir, fornbifhjól, létt og þung bifhjól, hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagna skal skoða fyrir 1. ágúst á skoðunarári ökutækis.
Fornbifreiðir skal færa til skoðunar annað hvert ár. Miða skal við skráningarár varðandi skoðunarreglur um skráningarár og ef ár dettur úr fær ökutækið eins árs skoðun.
Sé fornbifreið safngripur og hefur ekki verið hreyfð frá síðustu skoðun er ráðlagt að skrá hana úr umferð.
Á vef Ríkisskattstjóra má finna reiknivél til að glöggva sig á upphæð bifreiðagjalda. Þar má einnig sjá nánari upplýsingar um útreikning gjaldanna og undanþágur. Hægt er að fletta upp grunnupplýsingum um ökutæki eftir skráningarnúmeri og fá upplýsingar um skráða losun koltvísýrings (CO2) sé hann þekktur. Ef engin tala birtist er skráð losun koltvísýrings (CO2) óþekkt. Í þeim tilfellum er bifreiðagjald ákvarðað útfrá eigin þyngd ökutækisins.